Ég hef skoðun á öllu nema þessu

Gary Neville.
Gary Neville. AFP

„Ég hef skoðun á öllu nema þessu,“ sagði Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United, í umræðuþætti eftir 1:2 tap United gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. 

Tilboð Manchester United í framherjann Marko Arnautovic var umræðuefnið, en Bologna hafnaði fyrsta tilboði United. Gary Neville er vægast sagt ekki spenntur fyrir þessum orðrómum. 

„Það fyrsta sem þú gerir þegar Manchester United hringir er að hafna tilboðinu. Raunveruleikinn er sá að United tapaði leiknum í dag og er í verri samningsviðræðnastöðu en í gær, sem er enn meira vesen.“

Og hvað finnst þér um Arnautovic? Spurði þáttarstjórnandinn.

„Ég veit það ekki, ég er ekki með skoðun á því. Dave, ég er með skoðun á öllu í heiminum nema því að Manchester United sé að reyna að kaupa Marko Arnautovic í dag. Ég hef ekkert að segja,“ sagði Gary Neville, léttur á því, í umræðuþætti Skysports. 

mbl.is