Brentford krækir í öflugan Dana

Mikkel Damsgaard í leik með danska landsliðinu.
Mikkel Damsgaard í leik með danska landsliðinu. AFP/Liselotte Sabroe

Enska knattspyrnufélagið Brentford hefur fest kaup á danska vængmanninum Mikkel Damsgaard. Kemur hann frá ítalska A-deildarfélaginu Sampdoria.

Kaupverðið er um 12,7 milljónir punda og semur hann til fimm ára.

Damsgaard, sem er 22 ára gamall, sló í gegn á EM 2020 á síðasta ári þegar Danmörk komst alla leið í undanúrslit en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Englandi, þar sem hann skoraði mark danska liðsins í 1:2-tapi.

Hann gat lítið spilað á síðasta tímabili vegna óvenjulegra meiðsla. Damsgaard glímd nefnilega við liðagigt og gat því aðeins spilað ellefu deildarleiki fyrir Sampdoria á síðasta tímabili.

Vængmaðurinn leikni hefur þó fengið bót meina sinna og getur því hjálpað Brentford á öðru tímabili liðsins í ensku úrvalsdeildinni, en liðið hélt sér uppi með stæl sem nýliði á síðasta tímabili.

mbl.is