Chelsea vill de Jong og Aubameyang

Frenkie de Jong, lengst til vinstri, og Pierre-Emerick Aubameyang, annar …
Frenkie de Jong, lengst til vinstri, og Pierre-Emerick Aubameyang, annar frá hægri, eru undir smásjá Chelsea. AFP/Pau Barrena

Enska knattspyrnufélagið Chelsea er reiðubúið að festa kaup á Frenkie de Jong og Pierre-Emerick Aubameyang, leikmönnum Barcelona, fari svo að Börsungar samþykki að leyfa þeim að fara frá félaginu.

Manchester United hefur verið á eftir de Jong í allt sumar en hollenski miðjumaðurinn hefur ekki viljað fara þangað þrátt fyrir að 72 milljóna punda tilboð Rauðu djöflanna hafi verið samþykkt.

Barcelona skuldar de Jong 17 milljónir punda í frestaðar launagreiðslur og hyggst hann ekki hugsa sér til hreyfings fyrr en hann fær þær greiddar.

Börsungar vilja halda honum en einungis ef de Jong samþykkir að taka á sig launalækkun sem nemur um 11 milljónum punda, þ.e. að hann fái aðeins sex af 17 milljónum greiddar.

Samkvæmt Sky Sports er Chelsea reiðubúið að bjóða 72 milljónir punda í de Jong og vill einnig bjóða í Aubameyang, sem skipti til Barcelona frá Arsenal í janúar síðastliðnum.

Aubameyang og Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, þekkjast vel eftir að hafa unnið saman hjá Borussia Dortmund þar sem gabonski framherjinn raðaði inn mörkum.

Þá er Chelsea á eftir Wesley Fofana, miðverði Leicester City, og hefur fyrstu tveimur tilboðum Lundúnafélagsins verið hafnað.

Chelsea undirbýr nú þriðja tilboð sitt í Fofana og er talið að það sé nær þeim 80 milljónum punda sem Leicester vill fá fyrir hann.

mbl.is