Englandsmeistararnir leita að vinstri bakverði

Raphael Guerreiro er einn þeirra vinstri bakvarða sem eru á …
Raphael Guerreiro er einn þeirra vinstri bakvarða sem eru á blaði hjá Manchester City. AFP/Ina Fassbender

Englandsmeistarar Manchester City í knattspyrnu karla vilja ólmir bæta við sig vinstri bakverði eða tveimur áður en félagaskiptaglugganum verður lokað undir lok mánaðar.

Sky Sports greinir frá því að Raphael Guerreiro, vinstri bakvörður Borussia Dortmund og portúgalska landsliðsins sé ofarlega á blaði.

Samkvæmt einum heimildarmanni Sky er króatíski landsliðsmaðurinn Borna Sosa hjá Stuttgart á blaði en annar heimildamaður segir svo ekki vera.

Þá á City í viðræðum við Anderlecht um kaup á Spánverjanum Sergio Gómez en hefur þó ekki lagt fram formlegt kauptilboð.

Gómez er 21 árs gamall og yrði hann keyptur þætti líklegt að hann yrði lánaður til einhvers af venslafélögum eigenda City, City Group, sem á fjölda félaga víðsvegar um heiminn.

City er í leit að vinstri bakverði eða tveimur þar sem Oleksandr Zinchenko var seldur til Arsenal í síðasta mánuði og Benjamin Mendy hefur ekki leikið með liðinu í eitt ár eftir að hann var handtekinn og ákærður grunaður um fjölda kynferðisbrota gegn nokkrum konum.

Hinn réttfætti Joao Cancelo hefur verið byrjunarliðs vinstri bakvörður City um skeið og hefur það gefist vel en liðið telur þörf á að kaupa annan leikmann í stöðuna til þess að vera til taks.

mbl.is