United íhugar að leyfa Ronaldo að fara

Manchester United tapaði 4:0 fyrir Brentford um helgina.
Manchester United tapaði 4:0 fyrir Brentford um helgina. AFP/Ian Kington

Enska knattspyrnufélagið Manchester United gæti leyft Cristiano Ronaldo að yfirgefa félagið í glugganum.

Fyrir tímabilið gerði Erik ten Hag það ljóst að þrátt fyrir umræðu fjölmiðla væri Ronaldo ekki á förum. Nú getur það hafa breyst eftir erfiða byrjun United en fyrstu tveir leikir liðsins hafa endað með tapi og situr United nú í neðsta sæti ensku deildarinnar með 0 stig og -5 í markatölu.

Ronaldo á að vera að skapa neikvæðan móral, tali varla við liðsfélaga sína og situr einn í matsalnum. Hann er ekki að fela það að hann vill yfirgefa félagið en hann á eitt ár eftir af samningi sínum með United.

Innan félagsins er það áhyggjuefni hve hratt andrúmsloftið breyttist eftir að Ronaldo kom til baka eftir að missa af nær öllu undirbúningstímabilinu, samkvæmt heimildum BBC, en undirbúningstímabil United gekk mjög vel.

Leikmannaglugginn lokar 1. september svo Ronaldo hefur tíma til þess að finna sér nýtt félag en þónokkur lið sem spila í meistaradeildinni hafa þegar neitað því að fá hann til sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert