Nice vill leikmann Arsenal

Nicolas Pépé kom til Arsenal árið 2019.
Nicolas Pépé kom til Arsenal árið 2019. AFP

Franska úrvalsdeildarliðið Nice hefur áhuga á að fá Nicolas Pépé, leikmann enska félagsins Arsenal, á láni.

Nicolas Pépé kom til Arsenal fyrir 72 milljón pund árið 2019 fyrir núna 27 ára hægri kantmanninn en hann hefur aðeins skorað 16 mörk í 80 leikjum fyrir félagið.

Verðið á honum er það hæsta sem félagið hefur borgað fyrir leikmann þegar hann kom til Arsenal frá Lille í Frakklandi.

Hann hefur verið ónotaður varamaður í fyrstu tveimur leikjum Arsenal á tímabilinu. Arsenal vann báða leiki sína, þann fyrsta gegn Crystal Palace 2:0 og þann seinni gegn Leicester City 4:2. 

Pépé er landsliðsmaður og spilar fyrir Fílabeinsströndina. Miklar vonir voru bundnar við þennan dýra leikmann sem hann hefur ekki náð að standa undir.

mbl.is