Ancelotti staðfestir að Casemiro sé á förum

Casemiro og Carlo Ancelotti ásamt Dani Carvajal lengst til hægri.
Casemiro og Carlo Ancelotti ásamt Dani Carvajal lengst til hægri. AFP/Javier Soriano

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, hefur staðfest að brasilíski varnartengiliðurinn Casemiro sé á förum. Allar líkur eru á því að hann sé á leið til Manchester United, sem hefur fengið kauptilboð upp á 68,5 milljónir punda samþykkt.

„Ég hef rætt við hann og hann vill takast á við nýja áskorun. Við veitum ákvörðun hans skilning vegna þess hvernig persóna Casemiro er.

Viðræður eru í gangi og það er ekkert fast í hendi sem stendur en hann hefur ákveðið að yfirgefa Real Madrid,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi í dag.

Hann bætti því við að Casemiro muni ekki spila með Real Madríd gegn Celta Vigo í spænsku 1. deildinni um helgina en að ekki væru uppi áætlanir um að bæta sig við öðrum miðjumanni í sumar þrátt fyrir brottför hans.

„Casemiro mun ekki spila um helgina. Þarf ég mann í hans stað? Við erum með leikmenn sem geta fyllt skarð hans. Við erum búnir að kaupa [Aurélin] Tchouaméni og hann er einn sá besti sem var í boði á markaðnum.

Svo erum við með [Toni] Kroos og [Eduardo] Camavinga. Ég komst að því í gær að fréttirnar um Casemiro væru sannar en áætlanir mínar breytast ekkert,“ sagði Ancelotti.

mbl.is