Chelsea rannsakar kynþáttaníð – „Hálfvitar sem hengja sig á félagið“

Son Heung-Min er sagður hafa orðið fyrir kynþáttaníði síðastliðinn sunnudag.
Son Heung-Min er sagður hafa orðið fyrir kynþáttaníði síðastliðinn sunnudag. AFP/Chris Radburn

Enska knattspyrnufélagið Chelsea rannsakar nú atvik sem er sagt hafa átt sér stað í leik liðsins gegn Tottenham síðastliðinn sunnudag þar sem stuðningsmaður Chelsea er sakaður um að hafa beitt Son Heung-Min, sóknarmann Tottenham, kynþáttaníði þegar hann tók hornspyrnu.

Son, einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, er suður-kóreskur landsliðsmaður.

„Hegðun sem felur í sér mismunun er með öllu viðbjóðsleg. Chelsea hefur stöðugt komið á framfæri þeirri skoðun sinni að slík hegðun verði ekki umborin á neinn hátt.

[Þ]rátt fyrir það eru enn hálfvitar sem hengja sig á félagið sem svokallaðir „stuðningsmenn,“ sem færir Chelsea, þjálfurum þess, leikmönnum, starfsmönnum og sönnum stuðningsmönnum okkar skömm,“ sagði í harðorðri yfirlýsingu frá Chelsea.

Félagið hefur áður sett stuðningsmenn sína í lífstíðarbann vegna kynþáttaníðs.

Um atvikið í leik Chelsea og Tottenham sem er nú til rannsóknar sagði einnig í yfirlýsingunni:

„Við erum að rannsaka þetta atvik og ef það tekst að bera kennsl á aðilann mun hann sæta hörðustu mögulegu refsingu. Svona hegðun á ekki heima hjá Chelsea né í neinum samfélögum.“

mbl.is