Klopp: Var nálægt því að hringja og kvarta

Jürgen Klopp var ósáttur við umræður um Manchester United.
Jürgen Klopp var ósáttur við umræður um Manchester United. AFP/Justin Tallis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var allt annað en sáttur við ummæli Gabriel Agbonlahor í útvarpsþætti á TalkSport-stöðinni. Agbonlahor gaf í skyn að Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, ætti að segja af sér eftir tvö slæm töp í fyrstu tveimur deildarleikjum liðsins undir hans stjórn.

United tapaði gegn Brighton á heimavelli í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar, 1:2, og tapaði svo með niðurlægjandi hætti gegn Brentford á útivelli í 2. umferðinni, 0:4. Klopp var ósáttur við ummæli Agbonlahor, sem lék með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma.

„Ég horfði á fyrri hálfleikinn hjá United á móti Brentford og keyrði svo heim og hlustaði á TalkSport. Agbonlahor tapaði 0:6 fyrir okkur á fyrsta árinu mínu með Liverpool og ég man ekki eftir að hann hafi verið sérstaklega andlega sterkur.

Ég var nálægt því að hringja og kvarta. Hvernig eiga menn að bregðast við svona? Þeir gefast ekki upp og ég á ekki von á því hjá ten Hag. Við vitum ekki hvort þeir breyti miklu fyrir leikinn við okkur,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Manchester United og Liverpool eigast við á Old Trafford í Manchester á mánudagskvöld og verður flautað til leiks klukkan 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert