Ten Hag ósáttur með leikmenn United

Erik Ten Hag ræðir við leikmenn sína í leiknum gegn …
Erik Ten Hag ræðir við leikmenn sína í leiknum gegn Brighton í fyrstu umferðinni. AFP/Lindsey Parnaby

Erik Ten Hag, þjálfari enska knattspyrnufélagsins Manchester United, lét sína menn heyra það duglega á blaðamannafundi í dag.

Manchester United tekur á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester á mánudaginn kemur.

United hefur farið skelfilega af stað á tímabilinu og er án stiga eftir fyrstu tvær umferðir deildarinnar en Ten Hag tók við stjórnartaumunum hjá enska stórliðinu í sumar.

„Þú getur talað um taktík, leikplan og hugmyndafræði í fótbolta en þegar öllu er á botninn hvolft snýst fótboltinn um ákveðna grunnvinnu,“ sagði Ten Hag.

„Þú þarft að fara inn í alla leiki með hausinn rétt skrúfaðan á og rétt hugarfar. Það vantaði mikið upp á þar hjá mínu liði gegn Brentford um síðustu helgi. 

Hver og einn þarf að bera ábyrgð á sjálfum sér og svo þurfa menn að vinan saman sem eitt lið. Það eru ákveðnar vinnureglur sem menn þurfa að fylgja og svo þurfa menn líka að vera tilbúnir að leggja hart að sér fyrir liðið.

Þegar að þú vinnur þessa grunnvinnu þá öðlast menn sjálfstraust en það sem við þurfum fyrst og fremst að laga fyrir leikinn gegn Liverpool er hugarfarið,“ bætti hollenski stjórinn við.

mbl.is