Tuchel í bann en Conte sleppur með sekt

Thomas Tuchel og Antonio Conte rífast.
Thomas Tuchel og Antonio Conte rífast. AFP/Glyn Kirk

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, er kominn í eins leiks bann fyrir hegðun sína er Chelsea og Tottenham mættust í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag.

Tuchel og Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, rifust oftar en einu sinni á meðan á leik stóð og sauð upp úr í leikslok, með þeim afleiðingum að þeir fengu báðir rautt spjald.

Enska knattspyrnusambandið úrskurðaði Tuchel í eins leiks bann og sektaði hann um 35.000 pund. Conte slapp aftur á móti við bann en var sektaður um 15.000 pund.

Ekki hefur verið gefin út full skýrsla vegna málsins og tekur bannið hjá Tuchel því ekki gildi fyrr en eftir leik Chelsea gegn Leeds á sunnudaginn kemur. Honum er því frjálst að vera á hliðarlínunni á Elland Road. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert