Viðurkenndi loks mistök í leik Chelsea og Tottenham

Mike Dean sinnir nú einungis myndbandsdómgæslu.
Mike Dean sinnir nú einungis myndbandsdómgæslu. AFP/Glyn Kirk

Mike Dean, VAR-dómari í stórleik Chelsea og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag, hefur viðurkennt mistök í jöfnunarmarki Tottenham á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar Harry Kane skoraði.

Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en skömmu áður en Kane jafnaði metin má sjá liðsfélaga hans, Cristian Romero, toga harkalega í sítt hár Marc Cucurella svo hann féll í jörðina en Anthony Taylor dómari dæmdi ekkert þrátt fyrir að örfáum metrum frá atvikinu.

Í samtali við Daily Mail viðurkenndi Dean loks mistök sín í gær.

„Á þeim fáu sekúndum sem ég hafði til þess að skoða það þegar Romero togaði í hár Cucurella dæmdi ég það ekki sem ofbeldis tilvik.

Síðan þá hef ég skoðað myndbandsupptökur, talað við aðra dómara og eftir að hafa íhugað þetta hefði ég átt að biðja Taylor að fara í skjáinn og skoða atvikið sjálfur. Dómarinn á vellinum á alltaf lokaorðið,“ sagði Dean meðal annars.

VAR-dómarinn sagði að hann hefði átt að fá Taylor til þess að athuga hvort hann ætti að gefa Romero rautt spjald vegna hártogunarinnar.

mbl.is