Lygilegur félagaskiptagluggi Forest – 21 leikmaður inn og 17 út

Jesse Lingard er á meðal 21 leikmanns sem gekk til …
Jesse Lingard er á meðal 21 leikmanns sem gekk til liðs við Nottingham Forest í sumar. AFP/Paul Ellis

Það var í nógu að snúast hjá Nottingham Forest, nýliðum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, í félagaskiptaglugganum í sumar. Alls fékk Forest 21 leikmann til liðs við sig en á móti kemur að 17 leikmenn fóru annað.

Mikla athygli hefur vakið að félagið fékk þennan óeðlilega mikla fjölda leikmanna til sín þar sem Steve Cooper, knattspyrnustjóri Forest, sagði á svo til hverjum einasta blaðamannafundi þar sem hann sat fyrir svörum að félagið væri ekki hætt að leita að leikmönnum fyrir baráttuna fram undan á tímabilinu.

Í sumar samdi félagið við Morgan Gibbs-White, Taiwo Awoniyi, Emmanuel Dennis, Harry Toffolo, Remo Freuler, Orel Mangala, Neco Williams, Giulian Biancone, Lewis O’Brien, Moussa Niakhaté, Omar Richards, Josh Bowler, Willy Boly, Jesse Lingard, Cheick Kouyaté, Wayne Hennessey, Hwang Ui-Jo og Brandon Aguilera.

Þá fékk félagið Dean Henderson, Renan Lodi og Loic Badé að láni.

Glænýtt lið

Minni athygli hefur vakið að gífurlegur fjöldi leikmanna yfirgaf sömuleiðis félagið í sumar.

Níu leikmenn, þeir Brice Samba, Nuno Da Costa, Lewis Grabban, Tobias Figueiredo, Carl Jenkinson, Nikolas Ioannou, Xande Silva, Gaetan Bong og Joe Lolley skiptu alfarið til annarra liða.

Aðrir átta, þar á meðal þrír sem voru keyptir í sumar, voru lánaðir út. Hwang Ui-Jo, Josh Bowler og Brandon Aguilera voru strax lánaðir annað eftir að hafa verið keyptir og þá voru þeir Jonathan Panzo, Richie Laryea, Braian Ojeda, Ethan Horvath og Alex Mighten einnig lánaðir út.

Eftir standa nýliðar Forest með glænýtt lið og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig því reiðir af í ensku úrvalsdeildinni, ekki síst vegna þess að stærstur hluti nýju leikmannanna gekk til liðs við félagið eftir að tímabilið hófst og þurfa þeir því að aðlagast þessu glænýja liði eins fljótt og þeim er mögulega unnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert