Jóhann Berg: Þetta var langt frá því að vera rangstaða

Í Vellinum á Símanum Sport í gær var rætt um stórglæsilegt mark Philippe Coutinho fyrir Aston Villa sem fékk ekki að standa gegn Manchester City á laugardag.

Þar sem búið var að flauta rangstöðu í þann mund sem Coutinho tók skotið, sem fór í þverslána og inn, gat VAR ekkert aðhafst. Rangstaða var dæmd svo að nokkrir leikmenn Man. City hættu en Coutinho var sannarlega ekki rangstæður í aðdragandanum.

„Látið bara leikinn halda áfram. Við getum notast við VAR. Eigum við þá ekki að notast við það fyrst það er verið að notast við það? Að leikmenn búist við þá við því, að bæði lið haldi áfram,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

„Þetta var líka svo langt frá því að vera rangstaða,“ bætti Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley þá við.

Umræðu þeirra ásamt Bjarna Þór Viðarssyni og Tómasi Þór Þórðarsyni um markið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert