Annar sigur Aston Villa á tímabilinu

Jacob Ramsey fagnar sigurmarki sínu gegn Southampton.
Jacob Ramsey fagnar sigurmarki sínu gegn Southampton. AFP/Geoff Caddick

Jacob Ramsey reyndist hetja Aston Villa þegar liðið tók á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í 7. umferð deildarinnar í Birmingham í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Aston Villa en Ramsey skoraði sigurmark leiksins á 41. mínútu.

Þetta var annar sigur Aston Villa á tímabilinu en liðið er með 7 stig í þrettánda sætinu á meðan Southampton er í því tólfta með 7 stig.

Þá vann Fulham sinn þriðja sigur á tímabilinu þegar liðið heimsótti Nottingham Forest í Nottingham en leiknum lauk með 3:2-sigri Fulham.

Taiwo Awoniyi kom Nottingham Forest yfir á 11. mínútu áður en þeir Tosin Adarabioyo, Joao Palhinha og Harrison Reed skoruðu sitt markið hver fyrir Fulham í upphafi síðari hálfleiks.

Lewis O'Brien minnkaði muninn fyrir Nottingham Forest á 77. mínútu en liðið er með 4 stig í nítjánda og næstneðsta sætinu á meðan Fulham er með 11 stig í sjötta sætinu.

mbl.is