Slétt sama um gagnrýnina

Erling Haaland skorar sigurmarkið ótrúlega gegn Borussia Dortmund í fyrrakvöld.
Erling Haaland skorar sigurmarkið ótrúlega gegn Borussia Dortmund í fyrrakvöld. AFP/Lindsey Parnaby

Norski markaskorarinn Erling Braut Haaland gefur lítið fyrir þá gagnrýni sem hann hefur fengið að hann komi alltof sjaldan við boltann í leikjum með sínu nýja liði, Manchester City.

Haaland hefur byrjað með látum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og skorað tíu mörk í fyrstu sex leikjunum, og þá er hann kominn með þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjunum í Meistaradeildinni, þar af magnað sigurmark gegn sínu gamla liði Dortmund í fyrrakvöld. Samt hefur gagnrýni á leik hans látið á sér kræla.

Haaland snerti boltann aðeins ellefu sinnum í fyrri hálfleiknum gegn Dortmund en skoraði samt sigurmarkið og eftir leik svaraði hann gagnrýninni þegar hann var spurður um hana.

„Fólk segir að ég komi ekki nógu oft við boltann í leikjum, og segir hitt og þetta. En mér er nákvæmlega sama. Ég veit hvað ég á að gera og hvað ég þarf að gera. Og það var nákvæmlega það sem ég gerði í kvöld, í erfiðum leik. Og það er nákvæmlega það sem ég ætla að halda áfram að gera," sagði Haaland við beIN Sports eftir leikinn.

Hann var spurður hvort það væri pirrandi fyrir hann að fá boltann svona sjaldan í leikjum.

„Minn draumur er að snerta boltann fimm sinnum í leik og skora fimm mörk. Það er mitt stærsta takmark," svaraði Norðmaðurinn um hæl.

mbl.is
Loka