Þægilegur útisigur kom City á toppinn

Jack Grealish fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Jack Grealish fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Manchester City er komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 3:0 sigur á Wolves í Wolverhampton í dag. 

Englendingurinn Jack Grealish kom Manchester City 1:0 yfir eftir aðeins 55 sekúndna leik. Þá kom Phil Foden boltanum á Kevin De Bruyne með hælspyrnu, De Bruyne setti boltann fast fyrir þar sem Jack Grealish var og stýrði honum í netið.

Norðmaðurinn Erling Haaland tvöfaldaði forystu City-manna á 16. mínútu með skoti fyrir utan teig sem hann skaut ekki nægilega vel í, en samt rúllaði það í hornið neðra megin framhjá José Sá í marki Wolves. Þetta er ellefta mark Norðmannsins í deildinni.

Útlitið varðbara svartara fyrir heimamenn en Nathan Collins lét reka sig af velli á 33. mínútu. Hann fór með takanna beint í magann á Jack Grealish og fékk verðskuldað rautt spjald. 

Phil Foden þrefaldaði svo forystu City-manna Á 69. mínútu er hann kláraði sendingu Kevin De Bruyne með glæsibrag.

Fleiri urðu mörkin ekki og það er því Manchester-liðið sem fer heim með öll þrjú stigin og kemur sér í efsta sæti deildarinnar með 17 stig. Wolves er í 16. sæti með sex stig. 

mbl.is