Maupay sökkti West Ham á Goodison Park

Neal Maupay skoraði sigurmark Everton gegn West Ham í dag.
Neal Maupay skoraði sigurmark Everton gegn West Ham í dag. AFP/Oli Scarff

Neal Maupay var hetja Everton í 1:0 sigri á West Ham á heimavelli í 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Gestirnir í West Ham áttu fleiri afgerandi færi í leiknum en það er ekki alltaf spurt um það. Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill og staðan var markalaus þegar Michael Oliver, dómari leiksins, flautaði til leikhlés.

Á 53. mínútu átti Alex Iwobi sendingu á franska sóknarmanninn er hann var á milli þriggja varnarmanna gestanna rétt við vítateigslínuna. Maupay tók vel við boltanum og náði snöggu skoti sem Lukasz Fabianski réð ekki við í marki West Ham, 1:0.

West Ham sótti talsvert meira í kjölfarið og var meðal annars nálægt því að jafna þegar Benrahma, sem kom inn á sem varamaður fyrir Lucas Paquetá á 62. mínútu, átti lúmskt skot utan vítateigs sem hafnaði í tréverkinu. Nær komust gestirnir ekki, lokatölur 1:0.

Með sigrinum lyfti Everton sér upp í 13.-15. sæti með sjö stig en West Ham situr í 18. sæti með fjögur.

mbl.is