Liverpool leiðir kapphlaupið

Jude Bellingham er afar eftirsóttur.
Jude Bellingham er afar eftirsóttur. AFP/Sascha Schuermann

Liverpool leiðir kapphlaupið um enska knattspyrnumanninn Jude Bellingham en hann er samningsbundinn Borussia Dortmund í þýsku 1. deildinni.

Það er Telegraph sem greinir frá þessu en Bellingham, sem er einungis 19 ára gamall, er afar eftirsóttur þessa dagana.

Manchester City, Manchester United og Chelsea eru öll sögð fylgjast náið með leikmanninum en Liverpool er í leit að langtíma miðjumanni.

Liverpool Echo greinir frá því að forráðamenn Liverpool hafi verið í sambandi við Dortmund í sumar með það fyrir augum að kaupa leikmanninn.

Félögin náðu hins vegar ekki saman um kaupverðið en Bellingham er samningsbundinn Dortmund til sumarsins 2025.

Dortmund er hins vegar sagt tilbúið að leyfa leikmanninum að fara næsta sumar fyrir rétta upphæð og er talið næsta víst að Liverpool muni leggja allt í sölurnar til þess að tryggja sér þjónustu leikmannsins.

mbl.is