Van Dijk: Ég er ekki að spara mig

Virgil van Dijk hefur verið talsvert gagnrýndur í upphafi tímabilsins.
Virgil van Dijk hefur verið talsvert gagnrýndur í upphafi tímabilsins. AFP/Lindsay Parnaby

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segist ekki vera að spara sig fyrir heimsmeistaramótið í Katar sem hefst 20. nóvember.

Van Dijk, sem er 31 árs gamall, er fyrirliði hollenska landsliðsins en hann hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með Liverpool í upphafi tímabilsins.

Liverpool hefur fengið á sig sex mörk í sex deildarleikjum á tímabilinu en Liverpool er með 9 stig í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu sjö umferðirnar.

„Það er alls ekki þannig að ég sé að spara mig eitthvað fyrir heimsmeistaramótið,“ sagði van Dijk á fjölmiðlafundi hollenska landsliðsins í vikunni.

„Ég get fullvissað alla um það að ég er ekki að hugsa um heimsmeistaramótið þegar ég spila fyrir Liverpool.

Heimsmeistaramótið er ekki ástæðan fyrir því hvernig við höfum byrjað tímabilið,“ bætti van Dijk við.

mbl.is