Liverpoolmanninn dreymir um að spila með Celtic

Andy Robertson hefur fest sig í sessi sem einn lykilmanna …
Andy Robertson hefur fest sig í sessi sem einn lykilmanna Liverpool undanfarin ár. AFP/Paul Ellis

Andy Robertson er á hátindi ferilsins sem lykilmaður í enska knattspyrnuliðinu Liverpool en hann dreymir enn um að leika með öðru liði.

Robertson, sem er 28 ára gamall Skoti, hefur leikið á Englandi í átta ár, fyrst með Hull og síðan með Liverpool undanfarin fimm ár.

Hann hefur hinsvegar alla tíð verið stuðningsmaður Celtic í Skotlandi og segir að sig dreymi enn um að leika með liðinu.

„Í hvert sinn sem ég sé Celtic spila velti ég því fyrir mér hvort ég hafi tekið rétta ákvörðun. Það er magnað að fylgjast með þeim spila á troðfullum Celtic Park," segir Robertson í viðtali við Voetbal International í Hollandi.

„Ég verð að fylgjast með Celtic, ég hef gert það frá því ég var krakki," segir Robertson ennfremur, en kveðst jafnframt í viðtalinu verða afar sáttur ef hann leiki með Liverpool ferilinn á enda.

„Ef ég myndi spila einhvern tíma fyrir Celtic þá yrði það að vera á réttum forsendum. Ég vil ekki vera náunginn sem frændur mínir sem styðja Celtic myndu hata fyrir að vera ekki nægilega góður lengur. Sjáum til!" segir Andy Robertson.

mbl.is