Vonandi bara byrjunin

Beth Mead (t.v.) í leik með enska landsliðinu fyrr í …
Beth Mead (t.v.) í leik með enska landsliðinu fyrr í mánuðinum. AFP/Oli Scarff

Beth Mead, sóknarmaður Arsenal og enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var hæstánægð með að áhorfendametið í úrvalsdeild kvenna hafi verið stórslegið á Emirates-vellinum í dag.

Alls mættu 47.367 manns á leik dagsins.

Mead skoraði eitt marka Arsenal í öruggum 4:0-sigri á nágrönnunum í Tottenham Hotspur og var fagnað með miklum látum þegar hún var tekin af velli á 74. mínútu.

„Áhorfendurnir færðu okkur svo mikla orku. Hávaðinn var fáránlegur. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, stuðningsmennirnir voru ótrúlegir,“ sagði hún í samtali við BBC Sport eftir leik.

Mead var markahæst á EM 2022 á Englandi í sumar og var einnig valin besti leikmaðurinn þegar þær ensku unnu Evrópumótið með stæl. Áhorfendur á úrslitaleiknum gegn Þýskalandi á Wembley voru 87.192, sem er met yfir flesta áhorfendur á úrslitaleik EM hjá bæði konum og körlum.

„Það sem við áorkuðum í sumar var ótrúlegt en nú viljum halda áfram á sömu braut. Vonandi er þetta ennþá bara byrjunin,“ bætti Mead við.

mbl.is