Sterling grípur til varna fyrir Southgate

Raheem Sterling
Raheem Sterling mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raheem Sterling, sóknarmaður Chelsea og enska landsliðsins, hefur gripið til varna fyrir landsliðsþjálfarann, Gareth Southgate, sem hefur þurft að þola gagnrýni vegna árangurs liðsins undanfarið.

Sterling lét hafa eftir sér að það sé engin ástæða til að örvænta þó árangurinn hafi látið á sér standa undanfarið. Sóknarmaðurinn segir að þrátt fyrir að England hafi ekki unnið neinn af síðustu fimm leikjum og misst sæti sitt í A-deild Þjóðadeildarinnar þá hafi sama lið, undir stjórn Southgate, komist í undanúrslit á HM í Rússlandi og í úrslitaleik EM síðastliðið sumar.

„Við þekkjum allir hvað fylgir því að spila fótbolta á hæsta stigi, við liggjum undir gagnrýni sem er að einhverju leiti ósanngjörn. Það fylgir því að spila fyrir England og á því stigi sem við viljum spila á. Við erum alltaf undir pressu og fólk býst við að við vinnum leiki en þessi grunna lægð gefur okkur enga ástæðu til að örvænta. Við höfum gott tækifæri í vetur til að sýna úr hverju við erum gerðir. Southgate hefur fært okkur áfram á góðan stað en nú þurfa leikmenn að taka ábyrgð. Við erum ekki stoltir af frammistöðunni undanfarið en ég tel að þjálfarinn eigi ekki að axla þá ábyrgð einn. Innan leikmannahópsins eru heimsklassa leikmenn sem þurfa að axla hluta ábyrgðarinnar, snúa gengi liðsins við og fara að vinna fótboltaleiki. Við erum í þessu til að vinna fótboltaleiki. Við erum ekki í þessu til að vera með. Við erum samstilltur hópur á réttum stað til að koma til baka úr þessari lægð“, sagði Raheem Sterling að lokum.

England mætir Þýskalandi á Wembley í lokaleiknum í Þjóðadeildinni á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert