Yngstur í 134 ára sögu efstu deildar

Ethan Nwaneri í leiknum gegn Brentford um liðna helgi.
Ethan Nwaneri í leiknum gegn Brentford um liðna helgi. AFP/Ian Kington

Það sætti tíðindum þegar Ethan Nwaneri kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir Arsenal, gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi, enda pilturinn ekki nema 15 ára gamall og 181 degi betur.

Miðlar í Bretlandi og víðar voru fljótir að henda þetta á lofti og fréttapunkturinn var víðast hvar sá sami: Yngstur í sögu úrvalsdeildarinnar. Það er svo sem alveg laukrétt en af einhverjum undarlegum ástæðum gleymist oft að Englendingar byrjuðu ekki að sparka bolta árið 1992, þegar úrvalsdeildinni var komið á fót. Fyrst var barist um Englandsbikarinn veturinn 1888-89 og Nwaneri er yngsti maðurinn til að leika í efstu deild allar götur síðan. Sem er auðvitað miklu merkilegri frétt; við erum jú að tala um 134 ára langa sögu en ekki 30 ára.

Gamla metið átti Derek Forster, markvörður Sunderland. Það var sett 22. ágúst 1964 og stóð því í rúmlega 58 ár. Hann var 15 ára og 185 daga gamall – sumsé fjórum dögum eldri en Nwaneri.

Hvort Mikel Arteta stjóri Arsenal hafði þetta í huga þegar hann valdi Nwaneri í leikmannahóp sinn gegn Brentford hefur ekki komið fram. Pilturinn hóf leiktíðina í U18 ára liði Arsenal en svo skemmtilega vill til að því er stýrt af yngsta manninum sem félagið hafði fram að því teflt fram í deildarleik, Jack Wilshere. Hann var 16 ára, fimm mánaða og 12 daga þegar hann kom inn á gegn Blackburn Rovers í september 2008. Cesc Fàbregas var hins vegar yngsti leikmaðurinn til að leika fyrir Arsenal þangað til um síðustu helgi en hann var 16 ára, fimm mánaða og 24 daga þegar hann lék gegn Rotherham United í deildabikarnum í október 2003.

Nánar er fjallað um Ethan Nwaneri og Derek Forster í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »