Móðir drengsins vill að Ronaldo verði refsað fyrir árás

Cristiano Ronaldo í leik með Manchester United fyrri í mánuðinum.
Cristiano Ronaldo í leik með Manchester United fyrri í mánuðinum. AFP/Daniel Mihailescu

Sarah Kelly, móðir hins 14 ára gamla Jacobs Kelly, segir að refsa beri Cristiano Ronaldo, sóknarmanni enska knattspyrnufélagsins Manchester United, eftir að hann sló síma Jacobs úr hendi hans eftir leik Everton og Man. United síðastliðið vor.

Enska knatt­spyrnu­sam­bandið kærði Ronaldo til aganefndar sambandsins á dögunum fyrir að hafa slegið símann úr hönd Jacobs, sem er einhverfur stuðningsmaður Everton, eftir að hann hafði lyft símanum til að mynda Portúgalann, með þeim afleiðingum að síminn brotnaði og hönd Jacobs marðist og bólgnaði.

Ronaldo fékk viðvörun frá lögreglu og var gert að greiða skaðabætur, sem hann gekkst við.

Sarah segir í samtali við Mirror það vera minnstu mögulegu refsingu og vonast til þess að enska knattspyrnusambandið gangi lengra í refsingu sinni.

„Við skulum vona að hann fái loks þá refsingu sem hann á skilið. Hann getur ekki haldið áfram að komast upp með þetta. Hegðun hans er óásættanleg,“ sagði hún.

Sarah bætti því við að þau feðgin hefðu orðið fyrir stöðugu netníði á ný eftir að knattspyrnusambandið kærði Ronaldo, þar sem þau voru sökuð um að vekja athygli á málinu að nýju.

„Fólk eltir mig á röndum og segir að ég hafi dregið þetta fram í dagsljósið á ný en ég vissi ekkert um þetta. Það hefði átt að afgreiða hann fyrir hálfu ári síðan.

Sonur minn talar um það sem kom fyrir hann á hverjum degi. Hann hefur ekki enn fengið símann sinn aftur.“

„Ég er steinhissa á þessu, hann getur ráðist á barn og haldið sínu striki eins og ekkert hafi í skorist. Hvernig getur hann sofið á nóttunni vitandi af þeim þjáningum sem hann hefur valdið ungum stuðningsmanni?

Hann bauðst til þess að hitta okkur og sagði að honum þætti þetta leitt en sagðist ekki hafa gert neitt rangt. Það er ekki afsökunarbeiðni, það er móðgun,“ sagði Sarah einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert