Franski landsliðsmaðurinn byrjaður að æfa á ný

N'Golo Kanté í síðasta leiknum sem hann tók þátt í, …
N'Golo Kanté í síðasta leiknum sem hann tók þátt í, gegn Tottenham Hotspur um miðjan ágúst. AFP/Glyn Kirk

Franski miðjumaðurinn N’Golo Kanté hefur snúið aftur til æfinga hjá enska knattspyrnuliðinu Chelsea eftir að hafa misst af síðustu sex leikjum liðsins vegna meiðsla aftan á læri.

Kanté hefur aðeins tekið þátt í tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, fyrstu tveimur leikjum Chelsea, og hefur síðan þá misst af fjórum leikjum í deildinni og tveimur í Meistaradeild Evrópu.

Af sömu ástæðu missti hann af tveimur leikjum Frakklands í Þjóðadeild UEFA í yfirstandandi landsleikjahléi.

Sky Sports greinir frá því í dag að Kanté sé byrjaður að æfa á ný og gæti hann því tekið þátt í leik liðsins gegn Crystal Palace í deildinni næstkomandi laugardag.

mbl.is