Fyrrum Chelsea-maðurinn leggur skóna á hilluna

John Obi Mikel í baráttu við Jón Daða Böðvarsson í …
John Obi Mikel í baráttu við Jón Daða Böðvarsson í leik Nígeríu og Íslands á HM 2018 í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nígeríski knattspyrnumaðurinn John Obi Mikel hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril, 35 ára gamall.

Mikel lék stærstan hluta ferils síns með enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea, eða á árunum 2006 til 2017.

Þar var hann lykilmaður á miðjunni um langt árabil og hjálpaði liðinu að vinna Meistaradeild Evrópu í fyrsta skipti árið 2012 og vann auk þess úrvalsdeildina tvívegis og ensku bikarkeppnina í þrígang.

Mikel var þá hluti af nígeríska landsliðinu sem vann Afríkukeppnina árið 2013 og tók þátt í tveimur heimsmeistaramótum, árin 2014 og 2018, áður en landsliðsskórnir fóru á hilluna árið 2019.

Síðast lék hann fyrir Kuwait Sporting Club í Kúveit en hafði verið án félags síðan á síðasta ári.

mbl.is