Trent er góður varnarmaður en verst ekki alltaf vel

Jür­gen Klopp og Trent Alexander-Arnold.
Jür­gen Klopp og Trent Alexander-Arnold. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var á blaðamannafundi í dag spurður út í ákvörðun Gareth Southgate, þjálfara enska karlalandsliðsins, að nota hægri bakvörðinn Trent Alexander-Arnold ekkert í nýafstöðnu landsleikjahléi.

Southgate hefur sagt Kieran Trippier, hægri bakvörð Newcastle United, standa honum framar á heildina litið þar sem Trippier sé betri í að verjast.

Alexander-Arnold hefur verið heillum horfinn, þá sér í lagi varnarlega, í nokkrum leikjum Liverpool á tímabilinu en Klopp sagði hann ekki vera slakan varnarmann þó vissulega geti hann bætt sig.

„Það eru fréttir út um allt öllum stundum þar sem fullyrt er að hann sé ekki góður varnarmaður, en það er ekki rétt.

Hann er góður varnarmaður. Hann verst ekki alltaf vel, það er líka satt, en það er eitthvað sem við erum að vinna í. Hann er ungur leikmaður, 23 ára gamall.

Það er svo sannarlega rými fyrir bætingar en við ræðum það bara á því stigi sem við höfum þörf fyrir því framlag hans til sóknarleiksins okkar er svo svakalega mikið og gæti verið fyrir hvaða lið sem er í heiminum,“ sagði Klopp meðal annars.

mbl.is