Arsenal hafði betur í grannaslagnum

Gabriel Jesus kom Arsenal í 2:1
Gabriel Jesus kom Arsenal í 2:1 Ljósmynd/AFP

Hádegisleikurinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta stóð heldur betur fyrir sínu enda varla við öðru að búast þegar um Norður-Lundúnaslaginn var að ræða.

Heimamenn í Arsenal hófu leikinn af miklum krafti og gestirnir úr Tottenham komust varla lönd né strönd á upphafsmínútunum. Thomas Partey skoraði fyrsta markið á 20. mínútu með góðu skoti utan teigs eftir undirbúning Ben White, 1:0. Tottenham komst betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn og gerðu sig nokkrum sinnum gildandi við mark Arsenal áður en Brasilíumaðurinn Richarlison nældi í vítaspyrnu þegar hann var felldur af landa sínum Gabriel og Anthony Taylor, ágætur dómari leiksins, átti engra kosta völ en að benda á punktinn. Harry Kane steig upp og setti boltann auðveldlega í mitt markið fram hjá Ramsdale sem valdi sér horn, 1:1. Leikurinn var marka á milli það sem eftir lifði fyrri hálfeiks en ekki voru fleiri mörk skoruð fram að leikhléi.

Arsenal hóf seinni hálfleikinn, eins og þann fyrri, af mikilli ákefð og Gabriel Jesus kom heimamönnum í 2:1 í upphafi síðari hálfleiks. Tottenham missti Emerson Royal af velli með rautt spjald á 62. mínútu og það gerði í raun út um leikinn. Granit Xhaka bætti þriðja marki Arsenal við á 67. mínútu og þar við sat. Lið Tottenham virkaði slegið út af laginu við rauða spjaldið og Arsenal sigldi sigrinum þægilega í höfn í seinni hálfleik, lokatölur 3:1.

Arsenal er nú með 21 stig á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og fjögura stiga forskot á Englandsmeistara Manchester City, en meistararnir eiga þó leik til góða, gegn grönnum sínum í Manchester United, á morgun sunnudag.

Arsenal 3:1 Tottenham opna loka
90. mín. Arsenal fær hornspyrnu Arsenal tekur spyrnuna stutt og leika sér með boltann í og við vítateig Tottenham.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert