Belginn skoraði þrennu á Anfield

Liverpool og Brighton skildu jöfn, 3:3, í bráðfjörugum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í dag þar sem Belginn Leandro Trossard skoraði öll mörkin fyrir Brighton.

Þar með hefur Liverpool gert jafntefli í fjórum af sjö fyrstu leikjum sínum og er með 10 stig í níunda sætinu. Brighton er með 14 stig í fjórða sætinu og hefur byrjað tímabilið frábærlega en Roberto De Zerbi stýrði liðinu í fyrsta sinn í dag. Hann tók við af Graham Potter á dögunum þegar Potter var keyptur til Chelsea.

Brighton byrjaði leikinn af miklum krafti og náði forystunni strax á 4. mínútu þegar Trossard fékk boltann vinstra megin í vítateig Liverpool og skaut í hornið fjær, 0:1.

Alisson varði skalla Danny Welbeck af stuttu færi á 10. mínútu og frá Trossard af stuttu færi á 13. mínútu. Hann kom hins vegar engum vörnum við á 18. mínútu þegar Trossard fékk glæsilega sendingu frá Solly March inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði úr svipuðu færi og áður með skoti í hornið fjær, 0:2.

Liverpool sótti mun meira eftir því sem leið á hálfleikinn og Robert Sanches markvörður Brighton varði vel frá Salah af stuttu færi á 31. mínútu.

En á 33. mínútu fékk Salah boltann innfyrir miðja vörnina, lagði hann til hliðar á Firmino sem skoraði, 1:2, eftir nokkra bið því Salah var til að byrja með flaggaður rangstæður. Svo reyndist hins vegar ekki vera.

Brighton var því yfir í hálfleik en það entist ekki lengi. Á 54. mínútu náði Liverpool hraðri sókn, Luis Diaz sendi frá vinstri á Firmino sem lék laglega á varnarmann við vítapunktinn og skoraði sitt annað mark, 2:2.

Litlu munaði að Firmino skoraði sitt þriðja mark þremur mínútum síðar þegar hann skallaði beint á Sanchez í marki Brighton eftir fyrirgjöf Jordans Hendersons frá hægri.

En þriðja markið kom á 63. mínútu. Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri, Sanchez markvörður kýldi boltann beint í Webster samherja sinn og þaðan í markið. Sjálfsmark og 3:2.

Danny Welbeck var nærri því að jafna fyrir Brighton á 74. mínútu þegar hann átti hörkuskalla af markteig eftir fyrirgjöf frá vinstri en Alisson í marki Liverpool varði vel frá honum.

Leandro Trossard var ekki búinn að segja sitt síðasta orð. Á 83. mínútu fullkomnaði hann þrennuna með föstu skoti rétt utan markteigs, eftir sendingu Karou Mitoma frá vinstri, 3:3.

Þegar fimm mínútna uppbótartími var nýhafinn átti Trent Alexander-Arnold hörkuskot úr aukaspyrnu af 30 m færi sem Sanchez varði glæsilega í horn.

Liverpool 3:3 Brighton opna loka
90. mín. 5 mínútum bætt við og Liverpool fær aukaspyrnu rétt utan vítateigs - reyndar um 30 metra frá marki.
mbl.is