Skoraði sigurmarkið gegn sínum gömlu félögum

Conor Gallagher skoraði sigurmark Chelsea í dag.
Conor Gallagher skoraði sigurmark Chelsea í dag. AFP/Glyn Kirk

Leik Crystal Palace og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var að ljúka rétt í þessu. 

Það voru gestirnir í Chelsea sem fóru með þrjú stig heim af Selhurst Park í Lundúnum þar sem Conor Gallagher reyndist hetjan gegn sínum gömlu félögum.

Odsonne Édouard kom heimamönnum í forystu á 8. mínútu en Pierre-Emerick Aubameyang jafnaði metin fyrir Chelsea þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Allt stefndi í jafntefli áður en fyrrnefndur Gallagher, sem komið hafði inn á sem varamaður, skoraði sigurmarkið á 90. mínútu og tryggði Graham Potter sigur í fyrsta deildarleik hans sem stjóri Chelsea.

Þeir bláklæddu hafa unnið fjóra leiki af átta og eru með 13 stig. Crystal Palace situr eftir með sárt ennið en liðið er í 16. sæti með 6 stig.

Sannfærandi sigur Newcastle – Everton sótti þrjú stig

Newcastle vann þá sannfærandi 4:1 útsigur gegn Fulham. Nathaniel Chalobah í liði Fulham lét reka sig af velli eftir aðeins átta mínútna leik. Callum Wilson kom Newcastle þá á bragðið stuttu síðar og Sean Longstaff og Miguel Almíron (tvö) bættu við mörkum áður en Bobby Reid skoraði sárabótarmark fyrri heimamenn 89. mínútu.

Þetta var aðeins annar sigur Newcastle á tímabilinu í átta leikjum en liðið hefur gert fimm jafntefli hingað til og er nú með 11 stig, líkt og Fulham.

Everton vann góðan 2:1 útsigur á Southampton. Joe Aribo kom heimamönnum yfir á 49. mínútu en forystan lifði stutt því að Conor Coady og Dwight McNeil svöruðu fyrir gestina á 52. og 54. mínútu. Everton er með 10 stig eftir 8 leiki en Southampton er með 7 stig.

Bournemouth og Brentford gerðu markalaust jafntefli. Brentford er með 10 stig en Bournemouth er með einu stigi minna.

mbl.is