Tvær þrennur í níu marka grannaslag

Þrennumennirnir Erling Haaland og Phil Foden fagna í dag.
Þrennumennirnir Erling Haaland og Phil Foden fagna í dag. AFP/Lindsey Parnaby

Manchester City vann ótrúlegan 6:3-sigur á grönnum sínum í Manchester United á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

City byrjaði miklu betur og komst yfir strax á áttundu mínútu er Phil Foden kláraði vel í teignum eftir sendingu frá Bernardo Silva. Við það opnuðust flóðgáttir og City yfirspilaði granna sína.

Erling Haaland bætti við öðru marki á 34. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Kevin De Bruyne og aðeins þremur mínútum síðar bætti Haaland við öðru marki, aftur eftir sendingu frá De Bruyne. Belginn átti þá glæsilega sendingu inn fyrir á Norðmanninn sem skoraði.

City-menn voru ekki hættir í fyrri hálfleik því Foden gerði sitt annað mark á 44. mínútu eftir sendingu frá Haaland og voru hálfleikstölur 4:0.

Brasilíumaðurinn Antony lagaði stöðuna fyrir United á 56. mínútu með glæsilegu marki af löngu færi. Átta mínútum síðar fullkomnaði Halland hins vegar þrennuna eftir sendingu frá Sergio Gómez, 5:1.

Sú staða breyttist í 6:1 á 72. mínútu þegar Foden fullkomnaði sína þrennu, eftir sendingu frá Haaland. Enski strákurinn kláraði þá afar vel í teignum eftir sendingu frá þeim norska.

Eftir það var komið að varamanninum Anthony Martial til að laga stöðuna fyrir United. Fyrst skoraði hann af stuttu færi á 84. mínútu og minnkaði muninn í 6:2 og svo í 6:3 með marki úr víti sem hann náði í sjálfur á lokamínútunni og þar við sat.

City er í öðru sæti deildarinnar með 20 stig, einu stigi á eftir toppliði Arsenal. Manchester United er í sjötta sæti með tólf stig.

Man. City 6:3 Man. Utd opna loka
90. mín. Man. Utd fær víti Martial fer niður eftir baráttu við Martial og Oliver bendir á punktinn. Þetta var alls ekki alvarlegt brot en dómurinn stendur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert