Marsch hundfúll út í Aston Villa

Jesse Marsch.
Jesse Marsch. AFP/Oli Scarff

Jesse Marsch, knattspyrnustjóri Leeds United, var ekki sáttur við leikmenn Aston Villa eftir markalaust jafntefli liðanna á Elland Road í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Luis Sinisterra, sem kom til Leeds frá Feyenoord í sumar, var rekinn af velli í upphafi síðari hálfleiks eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt og heimamenn því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Gestirnir fengu nóg af færum til að tryggja sér stigin þrjú en inn vildi boltinn ekki. Leeds fékk þá gott færi undir lokin en markalaust jafntefli var niðurstaðan.

„Villa hægir á leiknum og nú hafa nokkur lið komið hingað sem vilja sparka boltanum í burtu og taka sér nokkrar mínútur í að taka markspyrnur.

Við þurfum að fá hjálp til að eiga við þetta. Við getum ekki gert þetta einir og það versta við þetta er að þetta er besti staðurinn fyrir okkur í deildinni og stuðningsmenn koma ekki hingað til að horfa á löturhægan fótboltaleik,“ sagði Jesse Marsch í viðtali eftir leik.

Bandaríkjamaðurinn sagðist ætla að tala við forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar varðandi málið. Hann sagðist hafa þjálfað í leikjum þar sem betri dómarar voru með flautuna sem gátu betur stjórnað því þegar leikmenn voru að sóa tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert