Nágrannarnir mætast í Manchester-slag

Marcus Rashford er markahæstur hjá Manchester United á leiktíðinni.
Marcus Rashford er markahæstur hjá Manchester United á leiktíðinni. AFP/Oli Scarff

Manchester City og Manchester United mætast í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Flautað verður til leiks klukkan 13 á Etihad-velli bláa liðsins í Manchester-borg.

Fyrir umferðina var Manchester City í öðru sæti með 17 stig, einu stigi á eftir toppliði Arsenal. Manchester United var í fimmta sæti með 12 stig, sex stigum frá toppnum.

City vann 3:0-sigur á Wolves á útivelli í síðasta leik en gerði óvænt 1:1-jafntefli á móti Aston Villa þar á undan. Liðið treystir á mörk frá Erling Braut Haaland en sá norski hefur skorað ellefu mörk í deildinni til þessa, níu mörkum meira en næstu samherjar.

Erling Haaland hefur farið á kostum til þessa á leiktíðinni.
Erling Haaland hefur farið á kostum til þessa á leiktíðinni. AFP/Thomas Coex

Manchester United byrjaði afleitlega á leiktíðinni en hefur unnið fjóra deildarleiki í röð. Fyrir vikið hefur liðið farið upp töfluna, en United hefur leikið einum leik minna en flest liðin fyrir ofan sig.

Á meðan Manchester City hefur blásið til veislu í byrjun tímabils og skorað 23 mörk í fyrstu sjö leikjunum, hefur United aðeins skorað átta mörk í fyrstu sex leikjunum. Marcus Rashford er markahæstur hjá United á leiktíðinni með þrjú mörk.

Einn annar leikur er á dagskrá í deildinni í dag. Leeds mætir Aston Villa á heimavelli og verður flautað til leiks klukkan 15:30.

Leikir dagsins í ensku úrvalsdeildinni:
13:00 Manchester City – Manchester United
15:30 Leeds United – Aston Villa

mbl.is