Ten Hag: „Þetta er óásættanlegt“

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var allt annað en sáttur með frammistöðu sinna manna í 6:3 tapi gegn nágrönnunum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn fór fram á Ethiad-vellinum og heimamenn voru mun betri en gestirnir í fyrri hálfleik og komust í 4:0 forystu með tveimur mörkum frá ofurmenninu Erling Braut Haaland og Phil Foden.

Báðir leikmennirnir fullkomnuðu þrennur sínar í síðari hálfleik en Brasilíumaðurinn Anthony og Frakkinn Anthony Martial skoruðu mörk gestanna.

„Okkur skorti trú“

„Þú getur ekki unnið leiki þegar þú hefur ekki trú á vellinum,“ sagði Ten Hag eftir leik. „Okkur skorti trú, það er það einfalt. Þetta er óásættanlegt. Við vorum ekki nógu agaðir og fengum skell, það er það sem gerðist.

Hollendingurinn sagðist hissa á frammistöðu United og benti á að sínir menn hefðu ekki verið nógu djarfir með boltann.

„Ég get ekki hugsað um jákvæðu punktana. Við brugðumst stuðningsmönnunum og okkur sjálfum og við erum gríðarlega vonsviknir.“

Manchester United tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu en vann svo fjóra í röð þangað til að liðið tapaði í dag. United situr nú í 6. sæti deildarinnar með 12 stig.

„Þetta er ferli. Þetta er einn leikur. Kannski myndum við ekki lenda í vandræðum á móti öðrum liðum en svona er þetta á móti Manchester City.

Ég vil breyta viðhorfi liðsins. Við sýndum mótspyrnu í síðari hálfleik. Við vorum djarfari og skoruðum þrjú mörk. Maður lærir bara af mistökunum,“ sagði Ten Hag að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert