Fyrsti sigur Leicester var stórsigur

James Maddison gerði tvö mörk fyrir Leicester.
James Maddison gerði tvö mörk fyrir Leicester. AFP/Geoff Caddick

Leicester fór úr botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með sannfærandi 4:0-sigri á grönnum sínum í Nottingham Forest á heimavelli í kvöld. Forest féll fyrir vikið niður í neðsta sæti deildarinnar, en bæði lið hafa nú unnið einn leik af átta mögulegum.

Yfirburðir Leicester gegn nýliðunum voru algjörir. James Maddison kom liðinu á bragðið á 25. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Harvey Barnes forskotið.

Maddison fullkomnaði síðan glæsilegan tíu mínútna kafla fyrir Leicester með þriðja markinu á 35. mínútu.

Staðan í hálfleik var því 3:0, Leicester í vil. Sú staða breyttist á 73. mínútu er Patson Daka bætti við fjórða marki heimamanna og þar við sat.

Liðin eru í tveimur neðstu sætunum með fjögur stig hvort, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni.

mbl.is