Liverpool eitt auðveldasta liðið til að spila á móti

Liverpool hefur ekki farið vel af stað á leiktíðinni.
Liverpool hefur ekki farið vel af stað á leiktíðinni. AFP/Lindsey Parnaby

„Stóra vandamálið hjá Liverpool núna er miðjan. Önnur lið eru of auðveldlega að komast nálægt vörninni,“ sagði Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður liðsins, á Sky Sports í kvöld.

Liverpool hefur ekki farið sérlega vel af stað í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á leiktíðinni og 3:3-jafntefli á heimavelli gegn Brighton á laugardag þýðir að liðið er í níunda sæti með tíu stig eftir sjö leiki.

Brighton komst í 2:0 á Anfield á laugardaginn, áður en Liverpool sneri taflinu sér í vil og breytti stöðunni í 3:2. Brighton tókst hins vegar að jafna undir lokin og skiptu liðin því stigunum á milli sín. 

„Brighton fékk góð færi snemma í leiknum og hefði allt eins getað komist í 4:0, því það vantar skipulag hjá Liverpool. Það er of auðvelt að vinna Liverpool. Klopp vill að það sé erfitt að spila við sitt lið, en núna er Liverpool eitt auðveldasta liðið til að spila á móti,“ sagði Carragher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert