Verðum að endurbyggja varnarleikinn frá grunni

Jürgen Klopp var ekki skemmt á laugardaginn þegar hans menn …
Jürgen Klopp var ekki skemmt á laugardaginn þegar hans menn fengu á sig þrjú mörk gegn Brighton. AFP/Lindsey Parnaby

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að hann verið að byggja upp varnarleik liðsins upp frá grunni á nýjan leik.

Varnarleikur Liverpool hefur verið slakur það sem af er tímabilinu og kristallaðist í 3:3 jafntefli liðsins gegn Brighton á Anfield á laugardaginn. Liverpool hefur aðeins unnið tvo af fyrstu sjö leikjum sínum í úrvalsdeildinni, fengið á sig níu mörk, og aðeins tvisvar náð að halda marki sínu hreinu í öllum mótsleikjum.

Klopp sagði á fréttamannafundi í dag, fyrir leik liðsins gegn Rangers í Meistaradeildinni sem fer fram annað kvöld, að liðið þyrfti að vinna sig út úr þessu á sama hátt og þegar það missti marga varnarmenn í meiðsli fyrir tveimur árum.

„Þegar þú sérð hvert vandamálið er og þú telur þig hafa lausnins, viltu að hún virki fljótt og vel, en þannig er það aldrei í fótboltanum. Mörkin sem við höfum fengið á okkur að undanförnu hafa verið keimlík. Málið er að við erum djarfir í okkar varnarleik og þegar tímasetningar eru ekki lengur fullkomnar erum við of berskjaldaðir. Við þurfum að vera þéttari," sagði Klopp.

„Varnarleikur er list og hafði gengið upp hjá okkur í langan tíma. En núna þegar hann virkar ekki lengur þá þarf að fara aftur á byrjunarreitinn og byrja frá grunni. En það er ekki alltaf hægt að gera aftur sömu hlutina. Ef við getum leyst málið með því að verjast á annan hátt, þá verðum við að gera það," sagði Klopp.

Hann bar skortinn á sjálfstraustinu í sínu liði um þessar mundir saman við Cristiano Ronaldo og bekkjarsetu hans hjá Manchester United.

„Haldið þið að Cristiano Ronaldo sé akkúrat núna með sitt mesta sjálfstraust á ferlinum? Þetta kemur fyrir alla. Lionel Messi í fyrravetur - það var nokkurn veginn það saman. Þú verður að stíga réttu skrefin í rétta átt, og þegar allt er klárt, þá gengur það upp á ný. Við verðum að vera þolinmóðir, finna réttu leiðina og svo verðum við aftur í fínu lagi," sagði Klopp.

mbl.is