Verður áfram laus gegn tryggingu

Umræddur leikmaður er fastamaður í sínu liði í ensku úrvalsdeildinni.
Umræddur leikmaður er fastamaður í sínu liði í ensku úrvalsdeildinni. AFP/Glyn Kirk

Leikmaður úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem er til rannsóknar vegna meintra nauðgana verður áfram laus gegn tryggingu.

The Guardian skýrir frá þessu í dag en leikmaðurinn var handtekinn 4. júlí og þá látinn laus gegn tryggingu fram í ágúst en það var síðan framlengt þar til í byrjun október.

Metropolitan-lögreglan í London staðfesti í júlí að ekkert yrði aðhafst frekar vegna meints brots leikmannsins sem átti að hafa átt sér stað í júní árið 2021 en haldið yrði áfram rannsóknum á tveimur öðrum kærum.

Leikmaðurinn var fyrst handtekinn í sumar vegna kæru um nauðgun í júní á þessu ári, og svo aftur vegna kæru frá annarri konu varðandi atvik í apríl og júní árið 2021.

Fram hefur komið að félagi leikmannsins hafi verið tilkynnt síðasta haust að ásakanir á hendur honum væru til rannsóknar. Umræddur leikmaður hefur leikið áfram með sínu félagi, og hefur átt fast sæti í liðinu það sem af er þessu keppnistímabili. Félagið staðfesti í júlí að hann yrði að óbreyttu áfram valinn í lið og að hann yrði ekki settur í bann.

mbl.is