Benítez aftur í enska boltann?

Rafael Benítez var rekinn frá Everton í janúar.
Rafael Benítez var rekinn frá Everton í janúar. AFP

Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest gæti ráðið Spánverjann Rafael Benítez sem eftirmann Steve Coopers, en sæti Coopers er heitt eftir 0:4-tap gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gær.

The Guardian greinir frá. Nýliðarnir eru í botnsætinu, með aðeins einn sigur á leiktíðinni til þessa, og er eiganda Forest ekki skemmt, eftir að félagið eyddi meira en 150 milljónum punda í 23 leikmenn í sumar.

Eins og gefur að skilja hefur það reynst Cooper erfitt að vinna með gjörsamlega nýtt lið í höndunum í sterkari deild, en þrátt fyrir það horfir Evangelos Marinakis, grískur eigandi félagsins, til Benítez til að koma í staðinn fyrir Englendinginn.

Cooper hefur gert magnaða hluti með Forest, en hann tók við liðinu í botnsæti B-deildarinnar í september á síðasta ári og stýrði því upp um deild.

Benítez stýrði síðast Everton með misjöfnum árangri, en hann er hve þekktastur fyrir tímann sinn sem stjóri Liverpool þar sem hann gerði enska liðið að Evrópumeistara árið 2005. 

mbl.is