Besta ákvörðun ævinnar að velja Chelsea fram yfir United

John Obi Mikel í leik með Chelsea fyrir nokkrum árum.
John Obi Mikel í leik með Chelsea fyrir nokkrum árum. AFP

Nígeríumaðurinn John Obi Mikel, sem í síðustu viku lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril, kveðst ekki sjá eftir neinu á ferlinum, þá sérstaklega ekki að hafa valið Chelsea fram yfir Manchester United.

Mikel skrifaði upphaflega undir samning við Man. United í apríl 2005 og áætlaði félagið að greiða norska félaginu Lyn um fjórar milljónir punda fyrir hann

Upphófst þá mikið drama þar sem Mikel ferðaðist til Lundúna án þess að láta neinn vita og sagði íþróttastjóri Lyn í samtali við norska fjölmiðla að honum hafi verið rænt.

Síðar það sumar lét Mikel hafa eftir sér í samtali við Sky Sports að hann hafi í raun viljað fara til Chelsea.

Ári síðar leystist loks úr deilunni þar sem Chelsea ákvað að greiða United 12 milljónir punda og Lyn fjórar.

Lék Mikel við góðan orðstír hjá Chelsea frá 2006 til 2017 og vann flesta titla sem hægt var að vinna í bláu treyjunni.

„Ég sé ekki eftir neinni ákvörðun sem ég hef tekið því ég naut þess sem áorkaði hjá Chelsea til hins ítrasta, þetta er besta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni tekið á ævi minni.

Ég skrifaði undir fyrirfram samning hjá Manchester United þegar ég var 17 ára. Þegar þú ert strákur og Sir Alex Ferguson er beint fyrir framan þig með samninginn þá er það auðvitað freistandi,“ sagði Mikel í samtali við BBC Sport Africa.

Chelsea hafði borið víurnar í hann áður en hann samdi við Man. United og voru forsvarsmenn félagsins steinhissa á að hann hafi skrifað undir í Manchester.

Umboðsmaður Mikels, John Shittu, flaug þá tafarlaust til Ósló í því skyni að koma honum sem fyrst til Lundúna, með það fyrir augum að koma honum til Chelsea.

„Ég lét eins og krakki og um leið og Chelsea fréttu af þessu komu þeir og náðu í mig til Noregs.Þá fór fólk að segja að mér hafi verið rænt.

Það var ekki neitt sérstakt augnablik fyrir mig. Ég vildi bara spila fótbolta því ég var svo ungur,“ bætti Mikel við.

mbl.is