Haaland aðeins með City í tvö ár?

Erling Haaland fagnar þriðja marki sínu gegn Manchester United á …
Erling Haaland fagnar þriðja marki sínu gegn Manchester United á sunnudaginn ásamt Jack Grealish. AFP/Lindsay Parnaby

Nýtur enska knattspyrnufélagið Manchester City krafta norska framherjans Erlings Haalands aðeins í tvö ár þrátt fyrir að hann hafi skrifað undir fimm ára samning?

Spænska blaðið El Chiringuito fullyrðir að það muni gerast og segir að Real Madrid sé í startholunum með að kaupa hann af City sumarið 2024. Þá muni félagið virkja klásúlu sem sögð er vera í samningi Norðmannsins um að hann geti farið frá City fyrir 130 milljónir punda.

Þá er vísað til ummæla Alf Inge Haalands, föður hans, sem sagði í heimildarþætti fyrir skömmu að sonur sinn hefði hug á að spila víðsvegar um Evrópu áður en ferli hans lyki. „Ég held að hann vilji sýna sig og sanna í öllum sterkustu deildunum og þá getur hann í mesta lagi verið í þrjú eða fjögur ár hjá Manchester City. Hann hefur verið tvö og hálft ár í Þýskalandi og gæti því verið í tvö og hálft ár á Englandi og síðan spilað á Spáni, Ítalíu og í Frakklandi," sagði Alf Inge Haaland um soninn sem hefur farið með himinskautum á fyrstu vikum sínum með Manchester City og skoraði 14 mörk í fyrstu sjö umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is