Sýna Ronaldo lítilsvirðingu

Cristiano Ronaldo brosmildur á varamannabekknum í leiknum gegn Manchester City …
Cristiano Ronaldo brosmildur á varamannabekknum í leiknum gegn Manchester City um síðustu helgi. AFP/Lindsey Parnaby

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að félagið sýni Cristiano Ronaldo lítilsvirðingu með því að láta hann sitja á varamannabekknum leik eftir leik.

Erik ten Hag, hinn nýi knattspyrnustjóri United, hefur sjaldan teflt Ronaldo fram í byrjunarliði sínu og Portúgalinn reyndi að komast frá félaginu í ágúst áður en lokað var fyrir félagaskiptin en það tókst ekki. Nú segja enskir fjölmiðlar að hann stefni á að komast í burtu í janúar.

Ástæðan fyrir bekkjarsetunni er almennt talin vera sú að Ronaldo henti ekki leikstílnum hjá ten Hag sem vilji að allt liðið pressi mótherjana af miklum krafti þegar boltinn tapast. 

Ronaldo hefur aðeins einu sinni verið í byrjunarliði í fyrstu sjö leikjum United í úrvalsdeildinni en fimm sinnum komið inn á sem varamaður, og hefur enn ekki skorað mark. Hann hefur hins vegar byrjað báða leiki liðsins í Evrópudeildinni og skorað eitt mark.

„Mér finnst Manchester United sýna Ronaldo lítilsvirðingu. Hann hefði átt að fá að fara áður en glugganum var lokað. Vissulega þarf stjórinn að hafa nokkra valkosti en þú heldur ekki Ronaldo í þínu liði til að láta hann sitja á bekknum. Hann er einn af bestu fótboltamönnum sögunnar," sagði Keane við Sky Sports.

„Hann hefur notað hann í einum eða tveimur Evrópuleikjum og þetta verður bara verra eftir því sem líður á tímabilið. Ef hann situr áfram á bekknum viku eftir viku þá versnar ástandið enn frekar. United sýnir Ronaldo ekkert annað en lítilsvirðingu að mínu mati.  Þeir áttu að leyfa honum að fara þegar tækifæri var til. Það var mögulegt. Ég veit allt um það," sagði Keane.

mbl.is