Vonast til að fara með Englendingum á HM

James Maddison í leik með Leicester City í síðasta mánuði.
James Maddison í leik með Leicester City í síðasta mánuði. AFP/Geoff Caddick

James Maddison, sóknartengiliður enska knattspyrnuliðsins Leicester City, ber enn þá von í brjósti að hann fari með enska landsliðinu á HM 2022 í Katar þrátt fyrir að hafa ekki verið inni í myndinni hjá því undanfarin ár.

Maddison, sem er 26 ára gamall, á aðeins einn A-landsleik að baki sem átti sér stað í nóvember árið 2019.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari, hefur ítrekað litið fram hjá honum þegar kemur að vali í landsliðshópinn þrátt fyrir að Maddison hafi verið á meðal atkvæðamestu ensku leikmannanna þegar kemur að því að skora mörk og leggja þau upp.

Þrátt fyrir það er hann sjálfur vongóður um að hljóta náð fyrir augum Southgate í næsta mánuði þegar HM fer af stað.

„Þar liggur metnaður minn, það er markmið mitt.

Að fá tækifæri á því stigi er nokkuð sem ég þrái og ég veit að ég myndi geta lagt mitt af mörkum þar,“ sagði Maddison í samtali við Sky Sports eftir 4:0-sigur Leicester á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Þar skoraði hann tvö mörk og lagði upp annað. Frá upphafi síðasta tímabils er Harry Kane landsliðsfyrirliði eini enski leikmaðurinn sem hefur komið að fleiri mörkum en Maddison.

Kane hefur skorað 24 mörk og lagt upp tíu í 45 leikjum á þeim tíma, samtals 34 mörk, og þar á eftir kemur Maddison með 17 mörk og tíu stoðsendingar í 42 leikjum, samtals 27 mörk.

mbl.is