Ronaldo pirraður en ekki á förum

Cristiano Ronaldo var allan tímann á bekknum gegn Manchester City.
Cristiano Ronaldo var allan tímann á bekknum gegn Manchester City. AFP/Lindsey Parnaby

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir stjörnuna Cristiano Ronaldo ekki á förum frá félaginu, þrátt fyrir að hann sé pirraður með bekkjarsetu að undanförnu.

Ronaldo var allan tímann á bekknum í 3:6-tapinu gegn Manchester City á sunnudag og átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum þegar myndavélarnar beindust að honum.

Leikmaðurinn vildi yfirgefa United í sumar en fékk ekki ósk sína uppfyllta. Hann er sem stendur þriðji kostur í framherjastöðu United og fær lítið að spila, sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann er ekki óhamingjusamur hjá félaginu. Hann æfir vel og er að njóta þess að vera hérna. Auðvitað er hann ekki sáttur með að spila ekki á sunnudag en hann er glaður á æfingasvæðinu. Hann er samt pirraður þegar hann fær ekki að spila.

Sú ákvörðun að hafa hann á bekknum hefur ekkert með framtíð hans hjá félaginu að gera. Hann er ekki á förum,“ sagði sá hollenski á blaðamannafundi í dag fyrir leik United gegn Omonia frá Kýpur á morgun.

mbl.is