Skil ekkert hvað Klopp segir

Darwin Núnez og Jürgen Klopp faðmast í leik Liverpool og …
Darwin Núnez og Jürgen Klopp faðmast í leik Liverpool og Rangers í Meistaradeild Evrópu í gær. AFP/Lindsey Parnaby

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Darwin Núnez, sóknarmaður Liverpool, viðurkennir að það hafi verið erfitt fyrir hann að aðlagast á Englandi og að þar hafi kunnáttuleysi hans í ensku haft sitt að segja.

Það hafi til að mynda í för með sér að hann skilji ekki hvað Jürgen Klopp knattspyrnustjóri segi á liðsfundum. 

„Í sannleika sagt skil ég ekkert hvað hann er að segja á liðsfundum. Ég spyr liðsfélaga mína eftir á til þess að komast að því hvað hann sagði,“ sagði Núnez í samtali við brasilíska miðilinn TNT Sports.

Tveir úr þjálfarateymi Liverpool, Portúgalinn Vítor Matos og Hollendingurinn Pepijn Lijnders, hjálpa honum þó og túlka það sem Klopp segir, auk þess sem Thiago og Luis Díaz eru spænskumælandi líkt og Núnez.

„Ef þeir myndu ekki gera það þá færi ég inn á völlinn án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað ég ætti að gera,“ sagði hann.

Eftir að hafa skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir Liverpool fékk Núnez beint rautt spjald í þeim þriðja og tók í kjölfarið út þriggja leikja bann í ensku úrvalsdeildinni. Síðan þá hefur hann leikið fimm leiki í öllum keppnum án þess að skora.

„Satt að segja hefur verið erfitt að aðlagast en ég trúi því að eftir því sem æfingum og leikjum fjölgar muni ég aðlagast smám saman. Þó að ég nái ekki að skora verð ég að halda ró minni.

Þegar maður fer loks að skora fylgja fleiri mörk í kjölfarið. Ég hef upplifað þetta áður en það er samt óþægilegt að vera sóknarmaður og skora ekki mörk,“ sagði Núnez einnig.

mbl.is