Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo neitaði að koma inn á í 2:0-sigri Manchester United á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi.
Daily Mail greinir frá. Ronaldo yfirgaf völlinn fyrir lokaflautið í gær og var mjög ósáttur við gang mála, en hann hefur mikið þurft að sitja á varamannabekknum á leiktíðinni.
Erik ten Hag vildi setja Ronaldo inn á undir lok leiksins í gær, en sá portúgalski ákvað frekar að halda heim. Hann vildi yfirgefa United í sumar, en fékk ekki ósk sína uppfyllta, og virðist sambandið á milli hans og félagsins ekki gott.
Gæti Ronaldo því yfirgefið United í janúar, en til þessa hefur reynst erfitt að finna félag sem hefur efni á kappanum.
Uppfært: Félagið hefur staðfest að Ronaldo verði ekki í leikmannahópnum gegn Chelsea á laugardaginn kemur.