Manchester United tapaði á Villa Park

Leon Bailey sendir boltann framhjá David de Gea og kemur …
Leon Bailey sendir boltann framhjá David de Gea og kemur Aston Villa yfir í leiknum í dag. AFP/Geoff Caddick

Aston Villa lagði Manchester United að velli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham í dag og Newcastle vann sannfærandi útisigur á Southampton. Þá vann Crystal Palace dramatískan útisigur á West Ham.

Aston Villa var ekki lengi að ná undirtökunum gegn Manchester United því Leon Bailey, lærisveinn Heimis Hallgrímssonar í landsliði Jamaíku, skoraði á 7. mínútu með hörkuskoti vinstra megin úr vítateignum og á 11. mínútu skoraði Lucas Digne glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, 2:0.

Luke Shaw kom United inn í leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar hann minnkaði muninn í 2:1 með hörkuskoti frá vítateig í varnarmann og inn.

Jacob Ramsey var hinsvegar fljótur að koma Aston Villa í 3:1 eftir hlé þegar hann skoraði með fallegu skoti á 49. mínútu eftir snögga sókn liðsins.

Aston Villa er komið upp í 14. sætið með 15 stig en Manchester United er áfram í fimmta sætinu með 23 stig.

Úrslitin í leikjunum sem hófust kl. 14.

Aston Villa - Manchester United 3:1
Southampton - Newcastle 1:4
West Ham - Crystal Palace 1:2

Newcastle í þriðja sætið

Newcastle náði forystunni gegn Southampton á 35. mínútu þegar Miguel Almiron skoraði eftir sendingu frá Callum Wilson. Chris Woods bætti við marki á 5. mínútu eftir sendingu frá Jacob Murphy. Fjórum mínútum síðar var staðan orðin 3:0 fyrir Newcastle eftir mark frá Joe Willock eftir sendingu frá Kieran Trippier.  Romain Perraud náði að svara fyrir Southampton á 88. mínútu, 3:1. Í uppbótartímanum skoraði svo Bruno Guimaraes fyrir Newcastle, 4:1.

Newcastle fór með sigrinum uppfyrir Tottenham og í þriðja sætið með 27 stig en Southampton situr eftir í 18. sæti, fallsæti, með 12 stig.

Sjálfsmark í uppbótartíma

West Ham komst yfir gegn Crystal Palace með marki frá Said Benrahma á 21. mínútu. Crystal Palace jafnaði á 41. mínútu með marki frá Wilfried Zaha, 1:1.

Þegar allt stefndi í jafntefli skoraði Aaron Cresswell sjálfsmark í uppbótartímanum og það reyndist sigurmark Crystal Palace, 2:1.

Crystal Palace fór með sigrinum uppfyrir Liverpool og í níunda sætið með 19 stig. West Ham er með 14 stig í 15. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert