Núnez með tvennu í góðum sigri Liverpool

Darwin Núnez skorar fyrra mark sitt í dag.
Darwin Núnez skorar fyrra mark sitt í dag. AFP/Lindsey Parnaby

Liverpool hafði betur gegn Southampton, 3:1, þegar liðin mættust í bráðskemmtilegum leik í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Anfield í Liverpool í dag. Öll fjögur mörkin komu í fyrri hálfleik.

Fyrri hálfleikur var hin besta skemmtun og var tónninn gefinn strax á sjöttu mínútu þegar Roberto Firmino kom Liverpool á bragðið með laglegum skalla eftir fyrirgjöf Andrews Robertsons úr aukaspyrnu af hægri kanti.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Ché Adams metin fyrir Southampton þegar hann skallaði hnitmiðaða fyrirgjöf James Ward-Prowse úr aukaspyrnu af vinstri kanti í autt markið eftir að Virgil van Dijk missti af Adams og Alisson var farinn í skógarferð.

Á 21. mínútu kom Darwin Núnez Liverpool yfir að nýju með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti á lofti eftir glæsilega fyrirgjöf Harvey Elliott.

Áður en fyrri hálfleikur var úti bætti Núnez við öðru marki sínu og þriðja marki Liverpool. Firmino átti þá glæsilega stungusendingu á Robertson sem var fljótur að renna boltanum þvert fyrir markið á Núnez sem stýrði boltanum viðstöðulaust í nærhornið.

Núnez hefur nú skorað níu mörk í 18 leikjum í öllum keppnum fyrir Liverpool á tímabilinu og fimm í tíu deildarleikjum.

Mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri, þá sér í lagi hjá Liverpool, en staðan 3:1 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var ekki jafn fjörugur en þó leit fjöldi færa dagsins ljós.

Tvö bestu færi hálfleiksins fengu gestirnir í Southampton en Alisson varði frábærlega frá Mohamed Elyounoussi og varamanninum Samuel Edozie með örstuttu millibili eftir rúmlega klukkutíma leik.

Bestu færi Liverpool í síðari hálfleik voru skallafæri þar sem Mohamed Salah og Firmino skölluðu naumlega yfir og Virgil van Dijk skallaði rétt framhjá markinu.

Um stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk Southampton annað frábært færi þegar Adams náði hörkuskalla eftir frábæra fyrirgjöf varamannsins Ainsley Maitland-Niles en Alisson varði enn á ný frábærlega.

Van Dijk fékk annað skallafæri áður en yfir lauk en skallinn fór naumlega framhjá.

Ekkert var því skoraði í síðari hálfleik og tveggja marka sigur niðurstaðan.

Með sigrinum fer Liverpool upp í sjötta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 22 stig.

Liverpool hefur nú unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum.

Southampton fer niður í 19. sætið þar sem liðið er áfram með 12 stig.

Roberto Firmino fagnar marki sínu í dag.
Roberto Firmino fagnar marki sínu í dag. AFP/Lindsey Parnaby
Liverpool 3:1 Southampton opna loka
90. mín. Nat Phillips (Liverpool) á skalla sem er varinn +3 Nær skallanum eftir hornspyrnuna en boltinn í varnarmann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert