Samningi Ronaldos við Manchester United rift

Cristiano Ronaldo leikur ekki fleiri leiki með Manchester United.
Cristiano Ronaldo leikur ekki fleiri leiki með Manchester United. AFP/Oli Scarff

Cristiano Ronaldo er laus allra mála frá enska knattspyrnufélaginu Manchester United en félagið staðfesti nú undir kvöld að samningi hans hefði verið rift.

Sjálfur hefur Ronaldo líka staðfest þetta við fréttamanninn Fabrizio Romano.

Hann getur þar með samið við annað félag án þess að Manchester United fái greiðslu fyrir hann.

Ronaldo sneri aftur til enska félagsins í ágúst 2021 eftir tólf ára fjarveru þar sem hann lék með Real Madrid og Juventus. Eftir að Hollendingurinn Erik ten Hag tók við sem knattspyrnustjóri United í sumar varð ljóst að hann ætlaði Ronaldo minna hlutverk í liðinu en áður.

Ronaldo hefur leynt og ljóst unnið að því að komast burt frá Manchester United undanfarnar vikur og mánuði en hann hefur fengið takmörkuð tækifæri með liðinu á þessu keppnistímabili. Þegar hann fór í umdeilt viðtal við Piers Morgan hjá The Sun fyrir skömmu sauð upp úr milli hans og félagsins. Þar fór Ronaldo hörðum orðum um knattspyrnustjórann og félagið.

Fregnir bárust af því að Manchester United væri að skoða möguleika á lögsókn á hendur Ronaldo fyrir ummæli hans í viðtalinu. Myndir af honum voru fjarlægðar af Old Trafford í síðustu viku.

Sjálfur er Ronaldo í Katar þar sem hann býr sig undir fyrsta leik Portúgals á heimsmeistaramótinu á fimmtudaginn.

mbl.is